Atferlismynstur og einkenni

Afneitun:

 • Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
 • Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
 • Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helguð/aður velferð annarra.
 • Mig skortir samúð fyrir tilfinningum og þörfum annara.
 • Ég yfirfæri neikvæð einkenni mín yfir á aðra.
 • Ég get séð um mig sjálf/ur án hjálpar frá öðrum.
 • Ég hyl sársauka minn á margan hátt, svo sem með reiði, húmor og einangrun.
 • Ég tjái neikvæðni eða yfirgang með óbeinum hætti eða aðgerðarleysi.
 • Ég gef engan gaum að því þegar fólk sem ég laðast að er ekki á lausu.

Lítil sjálfsvirðing

 • Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
 • Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
 • Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu hrós eða gjafir.
 • Ég er ófær um að biðja aðra um að mæta þörfum mínum eða þrám.
 • Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
 • Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða.
 • Ég sækist stöðugt eftir viðurkenningum sem mér finnst ég eiga skilið.
 • Ég á erfitt með að viðurkenna mistök.
 • Ég þarf að líta út fyrir að hafa rétt fyrir mér í augum annara og beiti jafnvel lygi til þess að líta vel út.
 • Mér finnst ég vera betri en aðrir.
 • Ég læt aðra sjá mér fyrir öryggiskennd.
 • Ég á í vandræðum með að koma mér að verki og að klára verkefni á réttum tíma.
 • Mér finnst erfitt að forgangsraða hlutum á heilbrigðan hátt.

Undanlátssemi

 • Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annarra.
 • Ég er næm/ur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
 • Ég er fram úr hófi trú/r fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
 • Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meira en mínar eigin og er hrædd/ur við að láta mitt álit í ljósi ef ég er ósammála einhverju.
 • Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
 • Ég sætti mig við kynferðislega athygli þegar ég vil ást.
 • Ég tek ákvarðanir án þess að hugsa um afleiðingar.
 • Ég gef eftir gildi mín til að vera samþykkt/ur af öðrum eða til að forðast breytingar.

Stjórnsemi

 • Mér finnst flest annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
 • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim ,,á” að finnast og hvernig þeim líður í ,,raun og veru”.
 • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
 • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurð/ur.
 • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem ég vil hafa áhrif á.
 • Ég nota kynferðislegt aðdráttarafl til að öðlast viðurkenningu.
 • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í samskiptum við það.
 • Ég ætlast til þess að aðrir mæti þörfum mínum.
 • Ég nota þokka minn og persónutöfra, til þess að sannfæra aðra um að ég sé fær um að sýna ást og umhyggju.
 • Ég nota ásakanir og skammir til að notfæra mér tilfinningar annara.
 • Ég neita allri samvinnu, málamiðlun eða samkomulagi.
 • Ég beiti afskiptaleysi, vanmætti, valdi eða reiði til þess að hafa áhrif á útkomuna.
 • Ég nota hugtök úr bataferlinu til að reyna stjórna hegðun annara.
 • Ég þykist vera sammála öðrum til þess að fá það sem ég vil.

Raunveruleikaflótti

 • Hegðun mín býður upp á að annað fólk hafni mér, svívirði eða reiðist mér.
 • Ég dæmi harðlega það sem annað fólk hugsar, segir eða gerir.
 • Ég forðast tilfinningalega, líkamlega eða kynferðislega nánd í þeim tilgangi að viðhalda fjarlægð gagnvart öðru fólki.
 • Ég leyfi fíkn minni í fólk, hluti og staði að hindra nánd í samskiptum.
 • Ég notast við óbein og óskýr samskipti til að forðast árekstra eða ágreining.
 • Ég takmarka möguleika mína á heilbrigðum samskiptum við fólk með því að nota ekki öll verkfæri batans.
 • Ég bæli niður tilfinningar mínar eða þarfir til þess að forðast að vera berskjaldaður/uð.
 • Ég dreg fólk að mér, en ýti því svo aftur frá mér þegar það nálgast mig.
 • Ég sleppi ekki tökunum á eigin vilja, af ótta við að gefast upp fyrir æðri mætti.
 • Mér finnst það veikleikamerki að sýna tilfinningar.
 • Ég læt þakklæti mitt ekki í ljós.

Þýðing í sjálfboðavinnu af þýðingarnefnd í samráði við www.coda.org